Til frambjóðenda vegna kosninga til sveita og bæjarstjórna maí 2014.


 

Ágætu frambjóðendur!

 

Nú þegar líða fer að kjördegi þurfa kjósendur að komast að niðurstöðu um hvaða flokka þeir munu styðja. Þá eru það auðvitað málefnin sem ráða miklu og gera verður ráð fyrir því að kjósendur kynni sér sem best helstu áherslur flokkanna fyrir næsta kjörtímabil og hvernig skattfé almennings verði varið.

 

Nú hef ég áhuga á t.d. því hvaða áherslur eru hjá flokkunum varðandi málefni eldra fólks, því nú er ég flokkaður meðal þeirra og verð að lifa af skammtinum eins og ég kalla það. Lítið eða ekkert hefur verið fjallað um þennan málaflokk enn sem komið er af hálfu frambjóðenda svo ég viti. Eru málefni eldri borgara ekki spennandi hjá ungu kynslóðinni sem gleymir því að allir eldast og vilja verða gamlir en ekki vera það?

 

Það er löngu viðurkennt að kjör svokallaðra eldri borgara hafa ekki í langan tíma verið eins léleg og nú. Það er einnig vitað að efnahagur eldri borgara er æði misjafn eins og er hjá örðum stéttum í okkar þjóðfélagi. Sem betur fer hafa margir nóg að bíta og brenna og sumir meira en þeir geta torgað en ég á við þá sem búa við hvað lökustu kjörin þegar ég nefni áherslur til að bæta kjör þeirra.

Þegar lífeyrissjóðirnir treysta sér ekki til að bæta þeim sem eru með lúsarlaun og ekki heldur Tryggingastofnun og ríkissjóður þarf á öllu sínu fjármagni að halda, þá er sá möguleiki eftir t.d. að sveitarfélögin hlaupi undir bagga.

 

En oftar en ekki kemur það fram bæði í ræðu og riti, hver á að borga? Þó kakan sé ekki stór á að vera hægt að skipta henni á réttlátari hátt en nú er gert. En það hefur því miður ekki tekist ennþá svo viðunandi sé. Það eru sjálfsagt markmið að bæta kjör eldri borgara, kjör sem hafa farið versnandi síðustu misseri svo óviðunandi er. Við lifum á undarlegum tímum svo ekki sé meira sagt. En þrátt fyrir það verður alltaf að hafa í huga réttlæti og sanngirni þegar fjármunum samfélagsins er deilt út.

 

Ég vil nefna eitt atriði sem leggja mætti áherslu á: Það er að eldri borgurum verði gert mögulegt að búa sem lengst í húsum og íbúðum sínum, sem þeir hafa stritað fyrir alla sína ævi á heiðarlegan hátt og hvergi komið nálægt fjármálasukki. Þarna er ég með í huga hin mjög svo háu fráveitu- og fasteignagjöld. Þau eru að mínu mati ekki sanngjörn gagnvart láglaunahópum, hvað svo sem má segja um þá sem eru með ofureftirlaun án þess að ég skilgreini það nánar.

Ég nefndi hér áðan undarlega tíma. Þegar lífskjörin hafa versnað sem aldrei fyrr þá gengur það auðvitað ekki hjá stjórnvöldum að seilast sífellt í vasa þeirra sem eru nánast tómir, því þannig hefur það verið. Það er ekki hygginna manna háttur að róa á mið þar sem lítið eða ekkert er að hafa. Það hefur ekki gengið sem skildi að bæta svo kjör eldri borgara og sjá það réttlæti sem felst í því að borgarar þessa lands þurfi ekki að kvíða ellinni eða ævikvöldi sem á að vera hverjum manni notalegt  miðað við að heilsan sé í lagi, og skilað hefur góðu ævistarfi af þrautseigju og samvisku.

 

Ekki gleyma þeim atkvæðum sem eldri borgarar hafa yfir að ráða. Þau eru jafngild öðrum atkvæðum. Ég vona svo að frá ykkur komi áherslur er varðar ofangreint fyrir kjördag.

 

Með vinsemd og kveðju,

Ingibjartur G. Þórjónsson.

ingibjartur@simnet.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband